Mælingar
Nokkur ráð varðandi mælingar á gluggum.
Mælingar og hvernig gardínur:
Þegar þú mælir fyrir rúllugardínum, þá er mælt frá steini í stein (stíft mál ), nema skipta eigi glugganum í t.d. tvennt á gluggapósti. Ef þú ætlar að skipta glugganum í tvennt, þá mælirðu frá stein á miðjan gluggapóst og frá miðjum gluggapósti út í stein og gefur þau mál upp við pöntun. Hér er reiknað með steinhúsi í orðinu steinn og þá pússningu eða bara hlið gluggans þar sem hann byrjar til hliðanna, fyrir utan gluggapóstinn. Ef glugginn er mjög breiður og margir póstar og skipta á glugga niður í nokkrar gardínur, þá gildir áfram mælingin á miðja pósta og svo er endað meðþví að mæla út í stein frá miðjum síðasta gluggapósti. Hægt er að festa gardínu upp í gluggann eða á póstana í glugganum og jafnvel í hliðar gluggans. Setja má keðjudrif hvoru megin sem er. Tvískipting gardínu á líka við um mjög breiða glugga. Þó er þetta oft gert ef opnanlegur gluggi er öðru megin við póstinn, þá er hægt að stjórna gardínunni sér, þeim megin. Margir vilja festa gardínunni fyrir svalahurðina á hurðina, en slíkt gefst ekki vel, enda er hún að flagga þetta út og suður, þegar hurðin er opnuð. Varðandi keðjudrif á gardínu fyrir svalahurð þar sem gluggi er hægra megin við, þá gefst vel að hafa keðjudrifið vinstra megin við hurðina. Það vill vera meira fyrir, hægra megin. þetta snýst svo við þegar svalahurð er út við vegg og gluggi kemur vinstra megin, þá að hafa keðjudrif út við vegg hægra megin. Það sem hér er sagt eru náttúrulega engin lög, en svona smá pistill varðandi gardínur og til að styðja við hugsanir fólks varðandi gardínur, mælingar og fyrirkomulag.
Við allar mælingar á gluggum er gott að hafa það í huga að ekki er víst að glugginn sé hornréttur eða allur glugginn sé jafn hár í báða enda eða jafn breiður uppi og niðri. (misþykkt á múr t.d.). Því er ágætt að mæla hæð í báðum endum og breidd uppi og niðri og velja síðan styttra málið í báðum tilvikum. Sjá mynd hér til hliðar; a1 ,a2, h1 og h2).